Sögulegur bakgrunnur
Darfúr er hérað í vesturhluta Súdan á stærð við Spán. Svæðið einkennist af fjalllendi og sléttum og var sjálfstætt ríki við lok 19. aldar. Árið 1916 var svæðið hernumið af Egyptum og Bretum og sameinað Súdan. Þegar Súdan náði sjálfstæði 1956 hélt Darfúr áfram að vera hluti þess.
Sumir hafa haldið því fram að átökin í Darfúr byggi á trúarlegum ágreiningi milli kristinna bænda og múslimskra hirðingja. Með því er dregin upp býsna einfölduð mynd af átökunum, því þrátt fyrir að hluti íbúa Darfúr sé kristinn, er bróðurpartur þeirra múslimar. Trúarbrögð hafa gegnt aukahlutverki í stríði sem hefur fyrst og fremst snúist um yfirráð yfir vatni, auðlindum og olíu. Átökin hafa einkum staðið milli stjórnvalda í Súdan og uppreisnarmanna, sem krefjast aukins sjálfstæðis.
Frelsishreyfingin vinnur á
Stríðið í Darfúr ágerðist jafnt og þétt upp úr aldamótunum 2000. Ákveðnir hópar, m.a. Zaghawa fólkið, taldi sig órétti beitt af arabískum yfirvöldum í Khartoum. Margir töldu yfirvöld í Khartoum hygla arabískum múslimum á kostnað annarra þjóðfélagshópa. Aðrir hafa gengið svo langt að kalla stjórnina hreina aðskilnaðarstjórn. Zaghawa fólkið, sem samanstendur mestmegnis af þeldökku fólki sem er af afrísku bergi brotið, taldi að fólki á þeirra svæði og þjóðarbrotinu í heild væri gagngert haldið frá áhrifum. Önnur þjóðarbrot í Darfúr, á borð við Fur fólkið og Masalíta, voru á sama máli.
Hópur uppreisnarmanna með þátttöku allra þjóðarbrotanna kom á fót vopnaðri uppreisnarsveit árið 2003, undir nafninu Frelsishreyfing Darfúr (Darfur Liberation Front, DLF). Markmiðið var að brjóta á bak aftur hernaðaraðgerðir í þorpum þeirra.
Uppreisnarsveitin breytti fljótlega nafninu í Frelsishreyfingu Súdans (SLM) og réðist í fleiri vopnaðar aðgerðir gegn herstöðvum í Darfúr. Stjórnvöld í Khartoum fengu fljótt veður af þessu, en stóðu þá þegar í hernaðarátökum á tvennum öðrum vígstöðvum, m.a. langvarandi stríði gegn uppreisnarhreyfingunni í Suður-Súdan. Omar al-Bashir forseti hafði því fámennt tiltækt herlið til þess að mæta uppreisnarmönnum í Darfúr, sem því gekk allt í haginn í byrjun.
Í apríl 2003 tókst SLM óvænt að ná höfuðstað Norður-Darfúr, Al Fashir, á vald sitt, þar sem þeir drápu og handtóku hundruð hermanna stjórnarhersins og eyðilögðu margar stórar flugvélar og þyrlur. Árásin var mikil niðurlæging fyrir súdanska herinn, sem hafði aldrei upplifað annað eins í margra ára átökum sínum í Suður-Súdan.
Al-Bashir breytir um stefnu
Árásin á Al Fashir var vendipunktur í stríðinu. Ríkisstjórnin í Khartoum ákvað að hleypa nýrri hernaðaráætlun í framkvæmd í því skyni að ráða niðurlögum SLM. Í stað þess að senda eigin hersveitir á vettvang var ákveðið að byggja á málaliðum frá arabískumælandi hirðingjaættbálkum. Kjarninn voru svokallaðir Janjaweed skæruliðar, sem höfðu átt í átökum við Masalit-fólkið í Darfúr allan 10.áratuginn. Janjaweed voru þekktir fyrir óvægna framgöngu og kynþáttahatur á vígvellinum. Vel vopnum búnir af hálfu súdanskra stjórnvalda stráfelldu Janjaweed liðar uppreisnarmenn og stóðu jafnframt fyrir beinum fjöldamorðum á óbreyttum borgurum. Þeir réðust á öll þorp og bæi sem uppreisnarmenn sögðust vera fulltrúar fyrir. Vorið 2004 höfðu þúsundir landsmanna sem ekki töldust til Araba verið drepnir og yfir milljón manna hrakin á flótta frá Darfúr. Á meðan á átökunum hefur staðið hefur ríkisstjórnin látið varpa sprengjum á borgir þar sem reiknað var með að stuðningsmenn uppreisnarmanna væri að finna og konum var nauðgað á kerfisbundinn hátt.
Stórslys af mannavöldum blasti við augum. Flóttamenn skorti mat, vatn og aðrar nauðsynjar og margir týndu lífi á flótta til grannríkisins Tsjad. Aðferðir Janjaweed báru augljós einkenni þjóðarmorðs. Þorpum með arabískumælandi íbúum var að mestu leyti þyrmt, en þorp annarra þjóðarbrota voru brennd til grunna.
Á árunum 2004 og 2005 var Tsjad dregið inn í deiluna. Ríkisstjórnin í Tsjad veitti SLM hernaðarlegan og diplómatískan stuðning og studdi einnig við bakið á nýrri uppreisnarsveit sem kallaði sig Hreyfingu réttlætis og jafnræðis (JEM). Rétt er að geta þess að JEM safnaði einkum liði úr röðum Zaghawa fólksins, sem er ekki bara búsett í Darfúr, heldur einnig í Tsjad. Forseti Tsjad kemur m.a. úr röðum Zaghawa og því má leiða líkur að því að hann hafi séð sér hag í að aðstoða Zaghawa fólkið í raunum þess í Darfúr.
Ágreiningur um sveitir SÞ
Á sama tíma hafði hin stigvaxandi mannúðarkrísa orðið til þess að alþjóðasamfélagið opnaði augun fyrir Darfúr. Afríkusambandið (AU) fékk umboð og vald til þess að senda 7000 manna friðargæslusveit til Darfúr. En sveitin var of lítil til að ná stjórn á ástandinu. Fleiri tilraunir til friðarviðræðna voru einnig gerðar og Bandaríkjamönnum tókst árið 2006 að komast að samkomulagi við stóran hóp innan SLM og úgandísku stjórnina.
Samkomulagið lagði grunninn að afvopnun Janjaweed og aukinni sjálfsstjórn í Darfúr. Það gerði einnig ráð fyrir fulltrúum SLM í stjórninni í Khartoum, en dugði þó ekki til þess að stilla til friðar á vettvangi. Stór hluti SLM samþykkti ekki samkomulagið og sömu sögu var að segja af JEM samtökunum. Janjaweed og sá hluti SLM sem hafði samþykkt samkomulagið hófu árásir á JEM. Á sama tíma var súdanska stjórnin ásökuð fyrir að semja um frið á meðan stríðið hélt áfram á vettvangi.
Stjórnvöld í Khartoum sömdu um frið við Suður-Súdan árið 2005. Þar með losnaði um hermenn sem unnt var að senda til Darfúr. Haustið 2006 og vorið 2007 hörðnuðu átökin og deilan var komin í algjöran hnút. Staða mannúðarmála í Darfúr var verri en nokkru sinni fyrr og hundruð þúsunda manna voru hraktir á flótta í eigin heimalandi. Alþjóðasamfélagið þrýsti á um að koma friðargæsluliðum SÞ á vettvang, en Omar al-Bashir hafnaði þeim áætlunum og kallaði þær nýlendustefnu. Mikill þrýstingur Kínverja, sem er eitt miklvægasta viðskiptaland Súdans, varð þó til þess að friðargæslusveit SÞ var send á vettvang og í október 2007 voru fyrstu hermennirnir sendir á vettvang af 26 þúsund í heild.
Friðarviðræður hefjast á ný
Sumarið 2008 hóf Alþjóðaglæpadómstóllinn (ICC) í Haag rannsókn á Omar al-Bashir forseta. ICC gaf út handtökuskipun á hendur honum 2009 og 2010, en hann hefur þó ekki verið handtekinn. Þvert á móti voru viðbrögð hans að vísa þrettán mannúðarstofnunum frá Darfúr. Nokkrar uppreisnarsveitir réðust á skotmörk utan Darfúr. ICC hefur einnig gefið út handtökuskipun á hendur sumra uppreisnarmanna. JEM réðist á höfuðborgina Khartoum og stórborgina Omdurman árið 2008. Þrátt fyrir það virtist sem lið SÞ og AU væri smám saman að ná tökum á ástandinu og mestu átökin fjöruðu út 2009.
Í desember 2010 fóru friðarviðræður af stað milli hluta uppreisnarhreyfingarinnar og stjórnarinnar í Khartoum. Viðræðurnar leiddu af sér nýtt friðarsamkomulag í júní 2011 (Doha samkomulagið). Samkomulagið var margþætt. Fyrst og fremst var því ætlað að tryggja fjárhagslegar bætur til íbúa Darfúr fyrir það sem þeir hefðu mátt þola. Auk þess skyldi komið á fót sérstöku stjórnvaldi fyrir Darfúr með löggjafarvaldi og framkvæmdavaldi fyrir svæðið. Þetta ráð skyldi starfa undir forystu fyrrum uppreisnarmanna. Andstætt friðarsamkomulaginu sem náðist milli Norður og Suður-Súdan 2005, var ekki gert ráð fyrir atkvæðagreiðslu um fullt sjálfstæði Darfúr. Í febrúar tók hin nýja Svæðisstjórn Darfúr (Darfur Regional Authority, DRA) til starfa.
Samskipti milli ólíkra uppreisnarhópa hafa á hinn bóginn orðið æ flóknari. Þótt sumir þeirra hafi átt þátt í nýja samkomulaginu, gilti það ekki um þá alla. SLM skiptist allt frá 2006 í tvær fylkingar þar sem klofningslínan byggði á ólíkum kynþáttabakgrunni þeirra. Auk þess höfðu ýmsir minni hópar skilið sig frá SLM. Með tímanum hafa skilin milli uppreisnarhópa og glæpagengja orðið sífellt óskýrari. Í lok árs 2011 gengu tvær stærstu fylkingarnar innan SLA/SLM til liðs við JEM og súdönsku uppreisnarhreyfinguna SPLM North og sameinuðust undir merkjum Súdönsku uppreisnarfylkingarinnar (e. Sudan Revolutionary Front).
Mannlegar þjáningar
Tíu ára stríð, hungursneyð og átök hafa komið illa niður á íbúum Darfúr. Margir flóttamenn eru hræddir við að snúa aftur heim og meira en helmingur sex milljón íbúa svæðisins er enn háður utanaðkomandi aðstoð. Samkvæmt Flóttamannastofnun SÞ (UNHCR), hafa átökin hrakið 2 milljónir manna í Súdan á flótta. Meirihluta þeirra má rekja til átakanna í Darfúr.
Nær vonlaust er að meta fjölda látinna í átökunum, en SÞ hafa áætlað í kringum 300 þúsund. Ýmsar stofnanir hafa óskað eftir formlegri rannsókn á mannúðaráhrifum stríðsins. Meirihluti dauðsfallanna (upp undir 80 prósent) er til kominn vegna hungurs, sjúkdóma og vannæringar, fremur en vegna stríðsátaka.
Flestir þeirra sem týnt hafa lífi í átökunum féllu í valinn fyrstu árin. Síðan hafa átökin dofnað þótt annað slagið hafi þau blossað upp af miklum krafti. Í ágúst 2009 sagði yfirmaður UNAMID (sameiginlegrar friðargæslusveitar Afríkusambandsins og Sameinuðu þjóðanna) að átökin í Darfúr gætu vart kallast stríð, heldur væri nær að tala um óstjórn með staðbundnum átökum um aðgengi að landi og vatni. Samkvæmt honum höfðu allar uppreisnarsveitir veikst verulega. Ofbeldi hefur haldið áfram síðan 2013, einkum í formi staðbundinna átaka um ræktarland og beitiland.