Áætlaður heildarfjöldi Kúrda er 28-40 milljónir manna. Það gerir þá að stærsta þjóðarbroti heims án eigin ríkis.
Nærri helmingur Kúrda býr í Tyrklandi, en í Íran, Írak og Sýrlandi búa líka stórir hópar Kúrda. Eftir fyrri heimsstyrjöldina var Kúrdum lofað eigin ríki, af Bretlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum, sem unnu stríðið. En þess í stað lentu Kúrdar undir stjórn Tyrkja. Fjöldi Kúrda hefur tekið þátt í sjálfstæðisbaráttu frá þessum tíma og mörg þúsund manns hafa týnt lífi í átökunum.
Aðdragandi átakanna
Í lok 19.aldar var Miðausturlöndum stýrt af Ottóman-heimsveldinu. Ottómanska heimsveldið var keisararíki, sem stjórnað var af tyrkneskum ættbálki, sem gekk seint að nútímavæða heimsveldið. Á sama tíma færðist þjóðernishyggja í vöxt í hinu fjölþjóðlega heimsveldi. Kúrdar voru meðal þeirra þjóðarbrota sem kröfðust sjálfstæðis.
Ottóman-heimsveldið riðaði til falls eftir fyrri heimsstyrjöld og sigurvegararnir ákváðu að skipta landsvæðinu á milli sín. Í fyrsta skiptasamningnum, sem undirritaður var í Sèvres 1920, var tekið tillit til óska Kúrda um sjálfstætt ríki. Samkomulagið gerði ráð fyrir að svæði þar sem Kúrdar væru í meirihluta, skyldu verða sjálfstætt ríki. Auk þess skyldu Grikkland, Frakkland og Armenía skipta stórum hluta Tyrklands nútímans á milli sín.
Hópur tyrkneskra þjóðernissinna var andsnúinn nýja samkomulaginu. Þeir komu á fót nýrri Tyrklandsstjórn í Ankara og héldu áfram átökum gegn Bandamönnum og kúrdískum uppreisnarmönnum. Tyrkjunum varð vel ágengt og tókst loks að knýja fram nýtt friðarsamkomulag sem viðurkenndi hið nýja tyrkneska ríki. Í nýja samkomulaginu frá 1923, Lausanne-samkomulaginu, var Kúrdum ekki úthlutað neinu landsvæði. Í staðinn var þeirra svæði úthlutað Tyrklandi nútímans.
Kúrdar í Tyrklandi
Þegar tyrknesku þjóðernissinnarnir stofnuðu hið nýja Tyrkland, gerðu Kúrdar í austurhluta landsins uppreisn. Árið 1927 lýstu Kúrdar yfir sjálfstæði í austurhluta landsins og kölluðu ríkið Kúrdíska lýðveldið Ararat. En sjálfstæðið varði ekki lengi, því þremur árum síðar var lýðveldið brotið á bak aftur af tyrkneska hernum.
Í lok þriðja og fjórða áratugarins hófu Tyrkir svokallaða „Tyrkjavæðingu“. Þjóðarbrot með önnur tungumál og menningu skyldu aðlöguð tyrkneskri menningu og margir voru fluttir búferlaflutningum nauðugir viljugir. Þetta varð kveikjan að uppreisn meðal Kúrda. Í uppreisninni í Dersim 1937-1938 voru tugþúsundir kúrdískra borgara drepnir. Tölurnar eru mjög á reiki, frá 13.000 til 70.000 drepnir. Mörg hundruð þorp voru brennd til grunna og fjölmargir íbúar neyddir til að flytja.
Árin á eftir mættu Tyrkir sjálfstæðisbaráttu Kúrda af hörku. Kúrdar sættu pólitískum ofsóknum og margir kúrdískir rithöfundar, blaðamenn og mannréttindafrömuðir voru fangelsaðir og drepnir. Kúrdísk menning og tungumál voru bönnuð.
Stofnun PKK
Á níunda áratugnum hófu Kúrdar vopnuð átök á ný gegn tyrknesku valdsherrunum. Kúrdíski verkamannaflokkurinn (PKK) var stonfaður 1978 og hvatti til uppreisnar. Frá upphafi var hugmyndafræði flokksins blanda af félagshyggju (e. socialism) og þjóðernishyggju. Allan níunda áratuginn þróaðist uppreisnin í viðvarandi skæruliðastríð milli PKK-liða og tyrkneskra hermanna. Skæruliðar PKK gerðu m.a. árásir frá bækistöðvum í Írak og Sýrlandi á hernaðarleg skotmörk í Tyrklandi. Um tíma höfðu þeir einnig stór landsvæði í austurhluta Tyrklands á valdi sínu.
Tyrknesk stjórnvöld brugðust við stríðsrekstri PKK með refsiaðgerðum gagnvart almennum kúrdískum borgurum. Hörðust urðu átökin á lykilsvæðum Kúrda í suðausturhluta Tyrklands. Í ljósi þess að PKK höfðu bækistöðvar í Írak fóru Tyrkir með hersveitir inn í Norður-Írak til þess að hafa upp á meðlimum og aðsetursstöðum PKK.
Leiðtogi PKK, Abdullah Öcalan, náðist árið 1999 og var dæmdur til dauða, en sá dómur var síðar mildaður í ævilangt fangelsi. Eftir dóminn lýsti Öcalan opinberlega yfir andstöðu gegn ofbeldi og skömmu síðar lýsti PKK yfir vopnahléi.
Vopnahléð varð til þess að bæta öryggisástandið í Suðaustur-Tyrklandi verulega, en að sama skapi leiddi umsókn Tyrkja um Evrópusambandsaðild til betri meðferðar á Kúrdum. Kúrdar fengu aukin stjórnmálaréttindi og banni við opinberri notkun tungumálsins kúrdísku var aflétt.
Kúrdar í Írak
Kúrdar voru ekki bara kúgaðir í Tyrklandi, svipaða sögu má segja frá Írak á stjórnartíma Saddams Husseins.
Eftir Lausanne sáttmálann 1923 fengu Kúrdar í Norður-Írak sjálfstæði upp að vissu marki. En það reyndist hafa litla hagnýta þýðingu. Deilur um hvað fælist í sjálfstæðinu leiddu til síendurtekinna árekstra milli kúrdískra uppreisnarsinna og írakska hersins.
Á eftirstríðsárunum hörðnuðu átökin og þegar Saddam Hussein tók við völdum á áttunda áratugnum kom til frekari deilna um sjálfstæðið og réttinn á olíuauðlindunum í Norður-Írak. Í þessari valdabaráttu nutu Kúrdar lengi vel stuðnings Írana, sem vildu veikja stjórn Husseins. Þegar stríð braust út milli Írans og Íraks 1980 fóru Íranar inn á kúrdísku svæðin og komu þar upp herstöðvum. Þegar þessu stríði lauk hóf Saddam Hussein umfangsmikinn hernað gegn kúrdískum borgurum, til þess að refsa fyrir samstarf þeirra við Íran. M.a. var eldflaugum með efnavopnum beitt, sem drápu yfir fimm þúsund almenna kúrdíska borgara.
Í kjölfarið á ósigri Íraks í Flóastríðinu 1991, hvöttu Bandaríkjamenn Kúrda til uppreisnar gegn Saddam Hussein. Kúrdar reiknuðu með stuðningi Bandaríkjanna en urðu að bjarga sér sjálfir þegar til kastanna kom. Bandaríkjamenn gerðu samkomulag við Hussein um vopnahlé og írakska hernum var beitt gegn uppreisnarmönnum. Kúrdum voru fjöldamorðin eftir stríð Íraks og Írans í fersku minni og því flúðu milli ein og þrjár milljónir Kúrda upp í fjöllin í átt að Tyrklandi. Tyrknesk stjórnvöld bönnuðu þeim að fara yfir landamærin og flóttamennirnir lentu í klemmu á milli tyrkneskra og írakskra hersveita. Til þess að koma í veg fyrir harmleik, ákváðu Frakkar, Bretar og Bandaríkjamenn að senda herlið á vettvang til verndar Kúrdum. Á sama tíma voru gerð svokölluð örugg svæði fyrir Kúrda, þegar írökskum stjórnvöldum var meinað að fljúga yfir lofthelgi Norður-Íraks.
Flugbannsvæðið yfir Norður-Írak varð til þess að kúrdísku svæðin nutu aukins sjálfstæðis á ný og 1992 kom fyrsta þing Kúrda saman í Norður-Írak. Þingið samanstóð af fulltrúum frá Kúrdíska Lýðræðisflokknum (KDP) og Sambandi kúrdískra þjóðernissinna (PUK). Þessar tvær fylkingar áttu lengi vel í vopnuðum átökum sín á milli, en undirritðu samning um vopnahlé 1998 og síðar gerðu þær með sér samstarfssamning.
Bandaríkjamenn réðust inn í Írak 2003 (með stuðningi hinna staðföstu þjóða) með því markmiði að steypa Saddam Hussein af stóli. Innrásin naut stuðnings margra Kúrda í Írak. Í nýrri stjórnarskrá Íraks frá 2005 er Kúrdum tryggð svæðisbundin sjálfsstjórn. Jalal Talabani var kjörinn forseti Íraks 2005 og varð þannig fyrsti kúrdíski þjóðhöfðinginn í heimi.
Kúrdar í Sýrlandi og Íran
Í Sýrlandi og Íran er einnig stór minnihlutahópur Kúrda sem hafa verið kúgaðir. Kúrdar eru stærsti minnihlutahópurinn í Sýrlandi og tóku þátt í hinni miklu borgarauppreisn gegn forsetanum Bashar al Assar, sem braust út árið 2011 (Lesa má nánar um það á síðunni um Arabíska vorið).
Í Íran búa margar milljónir Kúrda á landamærasvæðunum við Írak og Tyrkland. Kúrdar í Íran hafa leyfi til að tala tungumál sitt og viðhalda menningu sinni, en hafa þó verið kúgaðir í auknum mæli af írönskum stjórnvöldum síðustu árin. Íranskar öryggissveitir drápu þekktan kúrdískan aðgerðasinna 2005, Shivan Qaderim, ásamt tveimur öðrum Kúrdum í bænum Mahabad. Drápið leiddi til sex vikna mótmæla og uppþota í landamærabæjunum. Fjöldi manna týndi lífi í átökunum og margir Kúrdar voru handteknir og fangelsaðir án dóms og laga. Mörg kúrdísk dagblöð í Íran hafa verið bönnuð á undanförnum árum.
Nýjar deilur
Kúrdar í Norður-Írak hafa öðlast sjálfstæði að miklu leyti í dag, en í Tyrklandi blossuðu átökin við Kúrda upp á ný 2004. PKK fullyrtu að tyrkneski herinn hefðu haldið áfram árásum á Kúrda, en herinn sagði PKK hafa rofið vopnahléð.
Á níunda og tíunda áratugnum starfaði PKK í stórum hópum og freistaði þess að ná yfirráðum á stórum svæðum, en í dag eru skæruliðaárásir algengari. Notkun jarðsprengna og vegasprengna er ekki óalgeng. Tyrkneski herinn hefur gert fjölda árása á landamærum Norður-Íraks, þar sem hann hefur ráðist gegn PKK bækistöðvum. Mörg hundruð manns hafa látist í þessum árásum.
Kúrdískir aðskilnaðarsinnar hafa einnig beitt sprengjuárásum í tyrknesku höfuðborginni Ankara. Ekki liggur fyrir hve mikla tengingu þessir árásarmenn hafa við PKK. Engu að síður hafa bæði Evrópusambandið og Bandaríkin sett PKK á lista yfir hryðjuverkaógn.
Í október 2011 voru 24 tyrkneskir hermenn teknir af lífi í einni af banvænustu árásum PKK frá tíunda áratugnum. Tyrkneski herinn brást við með víðtækum aðgerðum gegn PKK í suðausturhluta Tyrklands, þar sem áætlað er að 50 uppreisnarmenn hafi verið drepnir. Í desember sama ár voru 35 óbreyttir borgarar drepnir í tyrkneskri flugárás. Forsætisráherra Tyrklands sagðist harma dauða óbreyttra borgara.
Á þessum tíma hafa einnig verið stofnaðar friðsamlegar stjórnmálahreyfingar Kúrda í Tyrklandi. Kúrdíski friðar- og lýðræðisflokkurinn (BDP) hefur unnið nokkrar kosningar í austuhluta Tyrklands, en margir flokksmenn hafa verið fangelsaðir og eru þannig útilokaðir frá afskiptum af stjórnmálum. Annar kúrdískur flokkur (DTP) var dæmdur ólöglegur og lagður niður af tyrkneskum stjórnvöldum 2009, sakaður um að hafa tengsl við PKK.