Sómalía var á nýlendutímanum undir stjórn Breta, Frakka og Ítala, áður en landið öðlaðist sjálfstæði árið 1960. Skömmu eftir að sjálfstæði var náð komst herforinginn Siad Barre til valda í valdaráni hersins, sem naut stuðnings Sovétríkjanna. Þessi óvægni einræðisherra var við völd þar til honum var steypt af stóli í öðru valdaráni hersins árið 1991. Margir vonuðu að brotthvarf hans markaði upphafið að lýðræðisumbótum í landinu, í takti við breytingar í þá átt víða um Afríku. En annað kom á daginn. Þess í stað mörkuðu lokin á valdatíð Barre upphafið að borgarastyrjöld, sem sundraði landinu í mörg minni svæði.

Hið flókna ættbálkakerfi í Sómalíu má telja sem meginorsök langvarandi ófriðar í landinu. Sómalska þjóðin skiptist upp í sex meginættflokka, sem síðan skiptast upp í fjölda undirættflokka og mörg hundruð smáættflokka. Samskipti þessara ólíku ættflokka hafa einkennst af sífelldum erjum og harðvítugri valdabaráttu. Herskáir hópar hinna ólíku ættflokka stjórna í dag ólíkum svæðum landsins. Talið er að um 20 slíkir ólíkir hópar berjist um völdin í landinu.

Sómalía – stjórnlaust land?

Ofbeldi og stjórnleysi hefur einkennt Sómalíu frá 1991. Almenningur hefur þurft að reiða sig á ættflokkana og íslömsk réttarkerfi sér til verndar. Sjálfstæðum íslömskum dómstólum sem dæma samkvæmt sjaríalögum hefur verið komið á fót víða um landið.

Í Sómalíu hefur vantað starfhæfa ríkisstjórn, lögreglulið og dómskerfi á vegum ríkisins. Bráðabirgðastjórn var komið á fót 2004, en hún hafði í reynd lítil völd. 2012 tók ríkisstjórn við af henni, sem hafði alþjóðlegan stuðning og í fyrsta sinn í rúm 20 ár hefur Sómalía nú alvöru ríkisstjórn.

Múslimsku dómstólarnir – Union of Islamic Courts (UIC)

UIC hersveitin ásamt almennnum borgurum í Mogadishu. Mynd: Abdikmalik Yusuf/IRIN

Ellefu dómstólar í höfuðborginni Mogadishu sameinuðust að lokum undir merkjum Union of Islamic Courts (UIC). Þessir dómstólar bjuggu yfir eigin hersveitum, sem hafa gert UIC að sterkri hreyfingu, sem hefur á undanförnum árum náð æ sterkari ítökum í landinu. Á árinu 2006 sölsaði UIC undir sig sífellt stærri hluta af suðurhluta Sómalíu, þ.m.t. Mogadishu. Samtökin bættu við sig meðlimum, einkum frá hinum svokallaða hayiwe ættbálki, en þau hafa öðlast traust almennings vegna harðrar stefnu gegn tíðum glæpum í höfuðborginni. Þeim hefur tekist að gera daglegt líf fjölda íbúa Mogadishu öruggara. 

Nágrannalöndin Eþíópía og Erítrea dragast inn í borgarastríðið.

Ný lota í borgarastríðinu í Sómalíu hófst í desember 2006, þegar Eþíópíumenn réðust á bækistöðvar UIC víðsvegar um Sómalíu. Árásirnar urðu til þess að bráðabirgðastjórninni TGF tókst að ná aftur stjórn á svæðum frá íslamistum í janúar 2007. Eþíópía hefur lengi stutt TGF í baráttunni gegn UIC, en hvorki TGF né Eþíópía hafa gengist við því opinberlega. UIC hafa fengið vopn frá Erítreu. Þannig tvinnast átökin í Sómalíu saman við átökin milli Eþíópíu og Erítreu. 

Aðkoma Bandaríkjanna að átökunum

Bandaríkin hafa haft tölvuerða aðkomu að borgarastríðinu í Sómalíu og styðja auk þess aðkomu Eþíópíu. Bandaríkjamenn hafa sakað UIC um að hafa náin tengsl við Al-Qaida og hafa fullyrt að samtökin haldi verndarvæng yfir þeim sem gerðu sprengjuárásir á bandarísk sendiráð í austurhluta Afríku 1998. Bandaríkin hafa í nokkrum tilvikum gert sprengjuárásir á staði í suðurhluta Sómalíu í leit að forsprakka Al-Qaida. Leiðtogi UIC, Sheikh Hassan Dahir Aweys, er á hryðjuverkalistum SÞ og Bandaríkjanna.

Bandaríkjamenn hafa almennt átt í góðu sambandi við Eþíópíu allt frá tímum Kalda stríðsins. Hernaðarlegt mikilvægi horns Afríku, svæðis sem markast af Eþíópíu, Erítreu, Sómalíu og Djíbútí, er líklega meginástæða langvarandi afskipta Bandaríkjamanna af svæðinu. Bandaríkjamenn vilja tryggja öryggismál á svæðinu og þannig vernda olíuframleiðslu og þá ekki síst olíuflutninga um Persaflóa.

Al-Shabab stríðsmennirnir

Eftir að íslamistar voru hraktir frá Mogadishu 2006, hafa átakalínur orðið óskýrari á ný. Helstu stríðandi fylkingar árið 2007 voru „ungliðahreyfing“ UIC, Al-Shabab, og aðrar herskáar sveitir íslamista með tengsl við Al-Qaida. Stærstur hluti landsins er utan áhrifasvæðis TGF og lýtur stjórn ýmissa ættbálka. Amnesty International og önnur mannréttindasamtök hafa gagnrýnt báða deiluaðila harðlega fyrir ítrekuð mannréttindabrot í átökunum.

Nýr andspyrnuhópur: Alliance for the Re-liberation of Somalia

Í september 2007 settu andspyrnuhreyfingar á stofn nýtt bandalag með aðsetur í Asmara í Erítreu, með því markmiði að binda endi á átökin. Bandalagið, sem kallast Alliance for the Re-liberation of Somalia (ARS), vill koma TGF frá völdum. Í ágúst 2008 var undirritað friðarsamkomulag milli TGF og ARS. Samkvæmt því skyldu eþíópískar hersveitir yfirgefa Sómalíu innan 120 daga. UIC lögðust bæði gegn samningaviðræðunum og inntaki samkomulagsins. Þeir þvertóku fyrir að yfirgefa Sómalíu fyrr en allir erlendir hermenn yrðu farnir þaðan.

Ung sómölsk stúlka í flóttamannabúðum. UN Photo: Manoocher Deghati/IRIN

Snemma árs 2008 jókst ófriðurinn í Sómalíu til muna og hörð átök brutust út í höfuðborginni Mogadishu. Í júlí 2008 var yfirmaður þróunarverkefnis SÞ fyrir Sómalíu myrtur í höfuðborginni. Meira en ein milljón manna hefur verið hrakin á flótta síðan átökin færðust í aukana á ný 2006. 

Sómalskir sjóræningjar hertaka skip úti fyrir ströndinni

Átökin í Sómalíu komust í sviðsljósið á ný 2008, vegna aðgerða sjóræningja úti fyrir ströndum landsins. Strandlengjan er löng og meðfram henni siglir mikill fjöldi skipa á leið til Mið-Austurlanda og Asíu. Á umliðnum árum hafa sjóræningjar hagnast um hundruð milljóna dollara með því að hertaka skip og krefjast lausnargjalds. Í maí 2008 samþykkti öryggisráð SÞ að ríki gætu sent herskip til Sómalíu til þess að berjast gegn sjóræningjum í sómalskri lögsögu.

Á árunum 2008 og 2009 sendi fjöldi ríkja herskip á sómölsk hafsvæði til höfuðs sjóræningjum. Þannig hefur tekist að halda þeim í skefjum og snarlega hefur dregið úr árásum. Árið 2012 var fjöldi árása sá lægsti í sex ár, en þá voru 75 árásir tilkynntar samanborið við 237 árið 2011.

Eþíópískt herlið kallað heim frá Sómalíu 2009

Í byrjun árs 2009 hófu Eþíópíumenn að draga herlið sitt smám saman frá Sómalíu, samhliða áætlunum Afríkusambandsins um að fylla upp í tómarúmið með hermönnum ríkja sem höfðu skuldbundið sig til þess að leggja sitt af mörkum til friðargæslu í landinu. Á sama tíma lét forseti bráðabirgðastjórnarinnar af embætti og skildi eftir sig tómarúm sem erfitt reyndist að fylla upp í.

Kjör nýs forseta

Í lok janúar 2009 kom sómalska þingið saman í grannríkinu Djíbútí. Á þinginu hafði fjölgað um 149 þingmenn, sem komu frá stærstu stjórnarandstöðufylkingunni Alliance for the Re-liberation of Somalia (ARS). Þingið komst að samkomulagi um að framlengja umboð bráðabirgðastjórnarinnar um tvö ár í viðbót (2009-2010). Sheikh Sharif Sheikh Ahmad var kjörinn nýr forseti landsins.

Staða stjórnarhersins veiktist á árinu 2009. Al-Shabaab stríðsmenn styrktu stöðu sína í öllum suðurhluta Sómalíu. Í maí gerðu þeir árás á höfuðborgina Mogadishu, sem þeir náðu að stærstum hluta á sitt vald og hröktu stjórnarherinn í lítil hverfi borgarinnar. Stjórnarherinn fékk 5000 manna lið frá Afríkusambandinu sér til aðstoðar. Meira en 200 þúsund manns hafa verið hraktir á flótta frá höfuðborginni.

Matvælaáætlun SÞ kallar starfsfólk heim frá suðurhluta Sómalíu

Í janúar 2010 sá Matvælaáætlun SÞ sér ekki annað fært en að kalla starfsfólk sitt heim frá suðurhluta Sómalíu. Ástandið var of viðsjárvert og starfsfólkið hafði fengið líflátshótanir frá liðsmönnum al-Shabaab samtakanna. Þar með var neyðaraðstoð við allt að eina milljón manna hætt. Al-Shabaab sökuðu Matvælaáætlunina um njósnir og tóku brotthvarfi starfsfólksins fagnandi. Samtökin lýstu því jafnframt yfir að þau gætu vel séð um að rækta eigin matvæli. Hins vegar hefur aðeins tekist að svara um 30% af eftirspurn eftir mat í landinu síðan 2008.

Flóttamannastofnun SÞ hefur lýst áhyggjum yfir stöðu mála. 1,3 milljónir manna eru á flótta í suðurhluta Sómalíu. Margir þeirra munu líklega enda í stærstu flóttamannabúðum heims, sem eru í nágrannalandinu Keníu. Búðirnar voru upphaflega byggðar til að hýsa 90 þúsund manns, en í dag eru þar 300 þúsund.


Hungursneyð

Árið 2011 urðu mestu þurrkar í 60 ár á horni Afríku. Í Sómalíu var staðan verri í ljósi óstöðugleika og þess að íslamistasamtökin al-Shabaab bönnuðu aðgengi ýmissa vestrænna hjálparstofnana. Mikil hækkun matvælaverðs, bæði á heimsmarkaði og á svæðinu var einnig hluti af vandanum. Sameinuðu þjóðirnar lýstu yfir hungursneyð á fimm svæðum í Sómalíu 2011.

Á sama tíma héldu átök áfram milli stjórnarhersins, herliðs Afríkusambandsins og uppreisnarhópa. Al-Shabaab drógu sig til baka frá höfuðborginni í ágúst, en í nóvember brutust átök út á ný í Mogadishu. Í október 2011 fór kenískt herlið til Sómalíu, eftir að upp komst um nokkur mannrán á kenískum borgurum, sem al-Shabaab samtökin voru grunuð um. Al-Shabaab voru í lok árs 2011 og eftir því sem leið á 2012 hraktir út úr fjölda stórra borga.

Nýtt þing og nýr forseti

Fyrsta formlega þing Sómalíu í rúm 20 ár sór embættiseið á flugvellinum í Mogadishu í júlí 2012 undir strangri öryggisgæslu. Það markaði lok átta ára umbreytingaskeiðs. Þingið kaus Hassan Sheikh Mohamud í embætti forseta í september 2012. Hin nýja stjórn Sómalíu nýtur alþjóðlegs stuðnings og vonir standa til að hún komi á auknum stöðugleika í landinu eftir margra ára borgarastyrjöld. Átök standa hins vegar enn yfir í landinu, milli stjórnarhersins og Afríkusambandsins annars vegar og hins vegar al-Shabaab auk innbyrðis átaka ólíkra hópa innan al-Shabaab.

Friðargæslusveitir Afríkusambandsins í Sómalíu

Friðargæsluliðar Afríkusambandsins frá Úganda
Friðargæsluliðar Afríkusambandsins frá Úganda. Mynd: Aweys Osman/IRIN

Árið 2009 var friðargæslusveit Afríkusambandsins, AMISOM, með 5000 hermenn á vettvangi í Sómalíu. Búrúndí og Úganda voru fyrstu ríkin sem buðu fram hermenn til starfans. Gæslulið Afríkusambandsins náði lykilstöðum í höfuðborginni á sitt vald, t.d. flugvellinum og höfninni. 51 hermaður sambandsins var drepinn í árásum al-Shabaab samtakanna árið 2009. Þetta ár var Afríkusambandið í fyrsta sinn í samstarfi með stjórnarhernum, þar sem ráðist var í miklar aðgerðir og árásir á al-Shabaab. Kenískir hermenn náðu fótfestu í landinu 2011, en Djíbútí, Síerra Leóne og Nígería hafa einnig sent hermenn til Sómalíu.