Bakgrunnur

Á árunum 1922-1991 voru Rússland og Úkraína hluti af Sovétríkjunum. Fram að 1957 tilheyrði Krímskaginn rússneska hluta hinna gríðarstórra Sovétríkja, en það ár ákváðu stjórnendur Sovétríkjanna að færa Krímskagann yfir í hluta Úkraínu. Skaginn var þá enn hluti af Sovétríkjunum, en var stjórnað af Sovéska lýðveldinu Úkraínu. Völd yfir bæði Krímskaganum og Úkraínu voru á þessum tíma enn í Moskvu, sem er höfuðborg Rússlands í dag.

Þegar Sovétríkin leystust upp árið 1991 varð Úkraína sjálfstætt ríki, eftir að 90% íbúanna kaus sjálfstæði. Stjórnvöld í Moskvu viðurkenndu Krímskagann sem hluta af nýrri Úkraínu, þrátt fyrir að meirihluti íbúa skagans voru taldir með Rússum.

Kalda stríðið, sem átti sér stað frá 1945 til 1991, var tímabil átaka milli austurs og vesturs. Tímabilið einkenndist af vígbúnaðarkapphlaupi, hótunum um kjarnorkustríð og hugmyndafræðilegri valdabaráttu. Aðalvald austursins voru Sovétríkin, sem stjórnað var frá Moskvu. Á móti voru Bandaríkin með Vestur-Evrópu sem helstu bandamenn í vestri. Samstarf Vesturlandanna var skipulagt í gegnum Atlantshafsbandalagið; hernaðar- og varnarbandalag sem myndaðist í baráttunni gegn Sovétríkjunum.

Spenna milli Moskvu og Vesturlandanna hefur ekki verið eins mikil frá Kalda stríðinu líkt og hún er nú. Í Kalda stríðinnu var helsta ógnin kjarnorkustríð og sú hætta er enn til staðar.

Mynd: Flickr/CC BY-NC-ND 2.0/vaXzine.

Átök hefjast í Úkraínu

Úkraína hefur landamæri við bæði Rússland og Evrópusambandið (ESB). Úkraína hefur þannig í grundvallaratriðum áhuga á góðum samskiptum við báða aðila. Engu að síður hallast mismunandi hópar innan landsins að öðru hvoru valdinu. Flestir stuðningsmenn ESB búa í vestri, en flestir stuðningsmanna Rússlands koma frá Austur-Úkraínu. Ágreiningur um hvort Úkraína skildi fremur hallast að ESB/ vestrinu eða Rússlandi olli þeim átökum sem nú eru til staðar í landinu.

Viktor Yanukovych var forseti Úkraínu þar til í febrúar 2014, þegar þing landsins tók hann frá völdum. Ástæðan var sú að ESB hefði boðið Úkraínu að skrifa undir svokallaðan samstarfssamning. Þessi samningur hefði leitt Úkraínu nær ESB. ESB krafðist samtímis að samningurinn myndi útiloka aðild Úkraínu að tollabandalagi við Rússa, en Rússland hafði á þessum tíma áform um að koma á tollabandalagi við Úkraínu, Hvíta-Rússland og Kasakstan.

Þessi tillaga ESB um útilokun á tollabandalagi við Rússland ýtti á þörf Yanukovych til að velja hvort veldið hann vildi að þjóðin myndi nálgast. Yanukovych var upphaflega jákvæður fyrir nánari samvinnu við ESB, en vildi ekki búa til meiri fjarlægð frá Rússlandi. Vegna tillögunnar ákvað hann því að hætta við undirskrift á samningi við ESB og hefja samstarf við Rússland í staðin. Þetta líkaði stuðningsmönnum ESB í Úkraínu illa og hófust í kjölfarið mótmæli við sjálfstæðistorgið Maidan Square í höfuðborginni Kænugarði í nóvember 2013. Nú hafa hundruð þúsunda tekið þátt í mótmælunum.

Maidan torg í Kíev, 8. desember 2013. Mynd: Flickr/CC BY 2.0/Alexander Solovyov.

Hörð viðbrögð úkraínsku ríkisstjórnarinnar við mótmælunum í höfuðborg landsins leiddi til vaxandi átaka og ofbeldis. Að endingu svipti ríkisstjórn Yanukovych valdi í febrúar 2014. Þessi aðgerð getur verið skilgreind sem valdarán því ákvörðunin hafði ekki þann meirihluta þingsins sem stjórnarskráin mælir fyrir um að þurfi til að taka slíka ákvörðun.

Þrátt fyrir að segja megi að uppsögn Yanukovych hafi verið ólögleg virtist hún hafa verið jákvætt skref fyrir lýðræði í Úkraínu ef marka má fréttaskýrendur og stjórnmálamenn á Vesturlöndum. Stjórn Yanukovych var talin vera spillt og ráðgjörn, meðal annars vegna ofbeldisfullrar meðferðar á úkraínskum mótmælendum og innleiðingu á lögum sem töluðu gegn mótmælunum. Rússland hafði aðra sýn á það sem gerst hafði: Vesturlönd höfðu stutt mótmælendur, sem margir hverjir voru nýnasistar, við að steypa löglega kjörnum stjórnmálamönnum af stóli. Síðan hafði ný ólögleg bráðabirgða-ríkisstjórn undirritað samstarfssamning við ESB.

Rússland brást við valdatökunni með stuðningi við uppreisnarmenn á Krímskaganum. Uppreisnarmennirnir tóku í kjölfarið við stjórn skagans og héldu svo kosningar um hvort Krímskagin ætti að færast undir stjórn Rússlands. Yfirgnæfandi meirihluti kaus Rússlandi í vil, en kosningarnar voru ekki viðurkenndar á alþjóðavettvangi. 13 af 15 meðlimum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna töldu kosningarnar vera ógildar vegna þess að íbúar Krímskaga höfðu ekki vald til þess að taka slíka ákvörðun upp á eigin spýtur. Svarmöguleikarnir í kosningunum voru einnig vafasamir sökum þess að valið stóð í raun á milli tveggja leiða sem báðar leiddu til sundrunar milli Úkraínu og Krímskagans.

Í mars 2014 ákvað Rússland að taka yfir Krímskagann, sem þýðir að skaginn var talin vera hluti af Rússlandi. Hvatinn að þessum aðgerðum Rússa var að hluta til áhyggjur af að Krímskaginn yrði notaður sem bækistöð fyrir Atlantshafsbandalagsins undir nýrri Úkraínustjórn.

Rússland studdi einnig uppreisnarmenn í Austur-Úkraínu. Þessir uppreisnarmenn unnu gegn stjórnvöldum í Kænugarði og aðgerðir þeirra voru innblásnar af sameiningu Krímskaga og Rússlands. Þetta leiddi til átaka í apríl 2014 milli stuðningsmanna Rússlands annars vegar, og hersveita Úkraínustjórnar og þjóðernissinna hins vegar. Bardaginn fór aðallega fram í héruðunum Donetsk og Luhansk í Austur-Úkraínu. Í lok 2014 höfðu átökin kostað yfir 4700 manns lífið.

8.júlí 2014. Mynd: Flickr/CC BY-NC 2.0/Sasha Maksymenko.

Aðgerðir Rússa á Krímskaga og í Austur-Úkraínu voru taldar vera skýr brot á alþjóðalögum. Þetta gaf Vesturlöndum grundvöll til að beita efnahagslegum refsiaðgerðum gegn Rússum. Rússland brást við með því að beita svipuðum viðurlögum, til dæmis með því að stöðva allan innflutning á mat frá Vesturlöndum.

Auk þess að vera viðbrögð við valdaráni og samningum við ESB í Úkraínu, voru aðgerðir Rússlands í landinu einnig tengd innlendum stjórnmálum í Úkraínu, þar á meðal stöðu rússneskrar tungu.

Átök innanlands

Um 17% íbúa Úkraínu eru af rússnesku bergi brotnir, og jafnvel fleiri hafa rússnesku sem móðurmál. Yfirvöld í Rússlandi halda því fram að Rússland beri ábyrgð á þjóðarbroti Rússa í Úkraínu, sem flestir búa austarlega í landinu.

Staða rússneska tungumálsins í Úkraínu hefur skapað óróleika á milli hópa í landinu. Þegar úkraínska ríkisstjórnin ákvað að rússneska myndi missa stöðu sína sem opinbert tungumál í landinu, jafnvel á svæðum þar sem meirihluti íbúa höfðu rússnesku að móðurmáli, töldu margir réttindi sín vera brotin og óttuðust aukna þjóðernishyggju í landinu. Vegna þessa vildu margir móta nánari tengsl við Rússland. Aðrir minnihlutahópar í Úkraínu hafa einnig haft áhyggjur af aukinni þjóðernishyggju í landinu.

25. maí 2014 voru nýjar forsetakosningar framkvæmdar í Úkraínu þar sem kaupsýslumaðurinn Petro Poroshenko bar sigur úr býtum. Stuttu eftir kosningarnar hóf nýja ríkisstjórn Úkraínu aðsókn gegn stjórnsvæðum uppreisnarmannana í austri; Donetsk og Luhansk. Ríkisstjórn Úkraínu og Atlantshafsbandalagið sakaði Rússland um að senda hermenn og hernaðarlegan búnað til uppreisnarmanna í austurhluta Úkraínu. Rússland hafnaði þessum ásökunum.

Austur Úkraína 8.júlí 2014. Mynd: Flickr/CC BY-NC 2.0/Sasha Maksymenko.

Aðgerðir Rússa í Úkraínu urðu ekki eingöngu til vegna falls Yanukovych, aukins samstarfs Úkraínu við ESB og slæmrar meðferðar á Rússum í landinu. Aðgerðirnar eru einnig taldar vera viðbrögð Austursins við stækkun Atlantshafsbandalagsins frá hruni Sovétríkjanna. Aðgerðir Rússa sýna fram á að Úkraína er enn hluti af Rússlandi á sviði öryggismála. Úkraína þjónar, í þessu tilfelli, tilgangi eins konar marka á því hversu langt til austurs Rússland er tilbúið að leyfa Atlantshafsbandalaginu að dreifa sér.

Alþjóðleg átök: Atlantshafsbandalagið og Rússland

Kalda stríðið var ástæða stofnunar Atlantshafsbandalagsins árið 1949, en þó hélt bandalagið áfram að starfa eftir lok stríðsins. Bandalagið hefur fengið marga nýja meðlimi og hefur með því stækkað til austurs. Búlgaría, Pólland, Eistland, Lettland, Litháen, Slóvakía og Slóvenía urðu meðlimir bandalagsins eftir fall Sovétríkjanna árið 1991. Að auki varð fyrrum Austur-Þýskaland (DDR) hluti af bandalaginuvið sameiningu Þýskalands árið 1990. Flest þessara nýju NATO-ríkja höfðu verið í hernaðarbandalagi með Sovétríkjunum í hinu svokallaða Varsjárbandalagi á tímum kalda stríðsins. Rússum mislíkaði sérstaklega að Eystrasaltslöndin (Eistland, Lettland og Litháen) yrðu meðlimir í NATO þar sem þau höfðu tilheyrt Sovétríkjunum. Hið sama gildir um Úkraínu.

Ban Ki-moon ásamt Viktor Janukovitsj í Washington D.C. 13. apríl 2010. Mynd: Flickr/CC BY-NC-ND 2.0/United Nations Photo/Eskinder Debebe

Þeir sem gagnrýna útbreiðslu Atlantshafsbandalagsins hefur verið sagt að stækkunin ógni Rússlandi og að Rússum finnist land sitt vera umkringt bandarískum herstöðvum. Þetta skapi óvissu sem leiði til átaka. Þeim finnst því of langt gengið að gera tilraunir til að innlima Úkraínu (og Georgíu) í Atlantshafsbandalagið. Einnig getur Rússland tekið þessari stækkun bandalagsins sem svikum gegn loforði sem bandarísk yfirvöld gáfu Sovétríkjunum við lok Kalda stríðsins.

Frá sjónarhorðni talsmanna útbreiðslunar er hins vegar litið á átökin milli austurs og vesturs sem óhjákvæmilegan þátt sem verði að verjast. Einnig er því haldið fram að ríki geti valið hvaða stofnanir þær vilja vera hluti af á grundvelli lýðræðis, og því geti Rússland ekki tekið ákvörðun fyrir Úkraínu.

Bandalög í austri og vestri

Árið 2008 voru áform gerð um að gera Úkraínu að meðlimi Atlantshafsbandalagsins. Áætlunin var hins vegar fryst þegar Yanukovych varð forseti árið 2010, en umræðan opnaðist aftur eftir að honum var steypt af stóli. Í desember 2014 samþykkti þingið að Úkraína myndi víkja frá óháðri stöðu sinni og vinna að aðild að Atlantshafsbandalaginu.

Hvort sem litið er á stækkun Atlantshafsbandalagsins og ESB með jákvæðum eða neikvæðum augum, þá virðist hún inniloka Rússland. Fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Robert Gates, sagði áætlanir um að bæta Úkraínu og Georgíu í bandalagið „grafi undan tilgangi bandalagsins og hunsi það sem Rússar telja vera mikilvæga þjóðarhagsmuni sína.“

Árið 2015 var ákveðið að stækka herstjórn Atlantshafsbandalagsins í austur með því að koma á fót nýjum stjórnstöðvum í Póllandi, Litháen, Lettlandi, Eistlandi, Rúmeníu og Búlgaríu. Ágreiningur er á Vesturlöndum um frekari stefnu gagnvart Rússlandi. Bandaríkin vilja t.d. styðja Úkraínu með vopnum en Þjóðverjar og Frakkar leggjast eindregið á móti því. Þeir vilja halda viðræðum áfram við Rússa um friðsamlega lausn á deilunni en hafa í bakhendinni hótun um nýjar efnahagslegar refsiaðgerðir.

Rússar hafa lengi brugðist við refsiaðgerðum með því að hvetja til nánari samvinnu við Kínverja og fyrrum Sovétlýðveldi í Mið-Asíu. Rússar hafa einnig stutt úkraínska aðskilnaðarsinna með rafrænum herbúnaði sem getur gert hergögn Úkraínu og Atlantshafsbandalagsins gagnlaus.

Friðarsamkomulag og meira stríð

Friðarsamkomulag milli Úkraínu, Rússlands og aðskilnaðarsinna var undirritað í Austur-Úkraínu 20. september 2014 á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE). Samningurinn er byggður á vopnahléssamningi sem undirritaður var 5. september og felur í sér bann við flugi herflugvéla yfir hluta Austur-Úkraínu og brottflutning erlendra hermanna af svæðinu. Að auki var 30 km svæði milli úkraínskra aðila baráttunnar gert að hlutlausu belti sem ÖSE mun fylgjast með.

Friðarsamkomulagið hefur nokkrum sinnum verið brotið síðan það tók gildi og hefur ekki haft veruleg áhrif á átökin sem stigmögnuðust árið 2015. Skrifstofa mannréttindafulltrúa SÞ (OHCHR) tilkynnti í mars 2015 að meira en 6000 manns hafi látið lífið á tæpu ári vegna átakanna í austurhluta Úkraínu. Tala látinna var komin upp í 6800 í september sama ár. Átökin hafa auk þess hrakið um milljón manns á vergang. Um 600.000 Úkraínumenn hafa flúið til nágrannalandanna og þar af um tveir þriðju til Rússlands.

Nýr friðarsamningur var undirritaður í febrúar 2015 en hann leiddi ekki heldur til raunverulegs vopnahlés. Úkraína hefur hins vegar í samræmi við nýja friðarsamninginn sem Vesturlönd styðja kostað kapps við stjórnarskrárbreytingu sem myndi gefa svæðinu í austri meira sjálfstæði. Þetta gæti hjálpað til við lausn deilunnar en stjórnarskrárbreytingin hefur aðeins leitt til ofbeldisfullra mótmælaaðgerða í Kiev. Úkraínumenn óttast að slík stjórnarskrárbreyting myndi verða til þess að Rússar tækju yfir austurhluta landsins.

2015 - Minsk friðarsamningurinn

Þann 20. September 2014 var friðarsamningur undirritaður á milli Úkraínu, Rússlands og aðskilnaðarsinna á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE). Friðarsamkomulagið var ítrekað brotið sem leiddi til hins svokallaða Minsk friðarsamnings í febrúar 2015. Minsk samningurinn var einnig síendurtekið brotinn af öllum samningsaðilum.
Strax á sama ári varð alvarleg stigmögnun í átökunum og hefur spennan ítrekað þróast til verri vegar á árunum á eftir.

2018 - Átök um Asovhaf

Haustið 2018 mögnuðust átökin aftur. Upptök þeirra var strangara eftirlit Rússa með úkraínskum skipum á leið að og frá Asovhafi. Frá innlimun Krímskagans árið 2014 hafa Rússar haft yfirráð yfir Kerch-sundi, sem liggur á milli Rússlands og Krímskaga, og tengir Asovhafið við Svartahafið. Þetta hefur skapað ágreining milli Rússlands og Úkraínu um hvar landamærin í Asovhafi liggja í raun. Úkraínsk yfirvöld brugðust við vaxandi átökum með því að koma á herlögum í landinu.

Forseti Úkraínu, Volodymyr Zelenskyj, er orðinn mikilvægt tákn um andstöðu Úkraínu gegn innrás Rússa. Mynd: UN Photo / Cia Pak.

2019 - Nýr forseti og nýjar friðarumleitanir

Vorið 2019 var Volodymyr Zelensky kjörinn nýr forseti Úkraínu. Hann bauðst til að eiga nýjar viðræður við Pútín til að binda enda á átökin. Pútín og Zelensky ræddust við í síma nokkrum sinnum sumarið 2019, en hittust í fyrsta skipti í desember 2019. Þeir samþykktu þá að skiptast á föngum og halda viðræðum áfram árið 2020.
Útgangspunktur viðræðanna Pútíns og Zelenskys var afstaða flokkanna frá Minsk-samkomulaginu árið 2015. Rússar telja að Úkraína verði að sætta sig við ósk aðskilnaðarsinna um aukið sjálfræði og rétt þeirra til að nota rússneska tungu. Úkraína telur að Rússar verði að hætta stuðningi við aðskilnaðarsinna og hverfa frá austurhluta Úkraínu. Í framhaldinu ætti að halda lýðræðislegar kosningar á svæðinu með alþjóðlegum eftirlitsmönnum á staðnum.

2021 - Hernaðaruppbygging og aukin spenna

Í desember 2019 var Pútín ekki tilbúinn að veita Úkraínu yfirráð yfir landamærunum fyrir sveitarstjórnarkosningar á svæðinu sem eru undir stjórn aðskilnaðarsinna að kröfu Zelensky. Aðilar náðu því ekki samkomulagi um varanlega friðarlausn.
Spenna magnaðist aftur árið 2021, þegar Rússar sökuðu Úkraínu um að flytja þungavopn inn á átakasvæðið. Rússar höfðu einnig sakað Zelensky forseta um ritskoðun með því loka þremur sjónvarpsstöðum rússneskumælandi stjórnarandstæðinga. Úkraína hafði einnig beitt refsiaðgerðum gegn rússneskum stjórnmálamanni og kaupsýslumanni í febrúar.
Til að bregðast við því, juku Rússar verulega viðveru sína á landamærum Úkraínu í apríl. Þetta varð til þess að Bandaríkin og aðildarríki NATO brugðust við. Atlantshafsbandalagið tilkynnti að það hefði aukið viðveru sína á Svartahafssvæðinu með auknu eftirliti úr lofti og auknum sýnileika við hafsvæðið. Zelensky hefur síðan unnið að inngöngu Úkraínu í NATO.

Rússar sendu meira en 100.000 hermenn að landamærum Úkraínu vorið 2021. Margir þeirra voru fjarlægðir nokkrum vikum síðar vegna viðræðna Pútíns og Biden. En í nóvember voru margar rússneskar hersveitir aftur komnar að landamærunum sem varð til þess að Rússar réðust inn í Úkranínu þann 24. febrúar 2022.

Aðkoma Íslands

Á vef Stjórnarráðs Íslands kemur fram að Ísland fordæmi þær ólögmætu árásir Rússa inn í Úkraínu og lýsa algerum stuðningi við Úkraínu. Ísland hefur gengið í takt með bandalags- og samstarfsríkjum í þeim viðbrögðum sem snúa að innrás Rússa í Úkraníu. Þær hafa falist m.a í víðtækum þvingunaraðgerðum, varnarviðbúnaði og framlögum til mannúðarstarfs.

Mannúðaraðstoð

Stóraukið framlag hefur verið lagt til mannúðaraðstoðar í Úkraníu og nágrannaríkjum, en heildarframlög Íslands til mannúðaraðstoðar nema nú tveimur milljónum evra, tæpum 300 milljónum króna.

Ísland tilkynnti strax um 150 milljón króna framlag til alþjóðlegs mannúðarsamstarfs vegna Úkraínu, sem skiptist jafnt á milli Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, svæðasjóð vegna Úkraínu á vegum samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) og Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC).

Þann 3. mars 2022 tilkynntu stjórnvöld viðbótarframlög til mannúðaraðstoðar að heildarupphæð eina milljón evra, eða um 145 milljónum íslenskra króna. Framlagið skiptist milli þriggja samstarfsaðila íslenskra stjórnvalda: Rauða krossins á Íslandi - 45 milljónir, Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) – 50 milljónir, og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) – 50 milljónir.

Rauði krossinn á Íslandi hefur einnig tilkynnt um framlag um 70 milljónir króna til mannúðaraðstoðar í Úkraínu vegna átakanna og til að aðstoða flóttafólk í nágrannaríkjum þess. Framlagið er afrakstur neyðarsöfnunar Rauða krossins þar sem um 40 milljónir króna söfnuðust auk 30 milljóna króna framlags frá utanríkisráðuneytinu.

Varnarviðbúnaður

Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu hefur í för með sér að Ísland tekur þátt í þeim aðgerðum sem bandalagið beitir gegn Rússum. Vegna þeirra stöðu sem er nú uppi í Úkranínu hefur Atlantshafsbandalagið gert viðeigandi ráðstafanir, þar sem viðbragðsstaða hefur verið aukin og varnar viðbúnaður styrktur. Ákvarðanir bandalagsins geta haft í för með sér aukin umsvif og sýnileika liðsafla bandalagsins í aðildarríkjum, þá sérstaklega í austurhluta Evrópu. Hlutverk Íslands í þeim áformum eru enn óljósar, en ljóst er að Ísland mun leitast við að uppfylla skuldbindingar sínar gagnvart Atlantshafsbandalaginu í þeim efnum, í samræmi við þjóðaröryggisstefnuna.

Þvingunaraðgerðir

Ísland hefur tekið undir allar pólitískar yfirlýsingar ESB undanfarna daga varðandi þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi vegna innrásarinnar í Úkraínu og eru þær yfirlýsingar því í gildi hér á landi.

Innleiðing á þvingunaraðgerðum birtist í Stjórnartíðindum þann 28. febrúar. Þessi reglugerð er breyting á gildandi reglugerð nr. 281/2014 um þvingunaraðgerðir varðandi Úkraínu með síðari breytingum, og innleiðir fyrsta pakka þvingunaraðgerða ESB sem birtur var í Stjórnartíðindum ESB 23. febrúar sl. Sá pakki var settur í kjölfar viðurkenningar á svæðunum tveimur, Luhansk og Donetsk, og fyrirskipana um að herlið skuli fara inn á svæðin.

Í 2. gr reglugerðarinnar er fjallað yfirflugsbann tók gildi þann 28. febrúar 2022 en það þýðir að öllum loftförum í eigu, leigu eða sem eru rekin af rússneskum ríkisborgurum er bannað að fara í, úr eða gegnum íslenska lofthelgi.

Koma flóttafólks frá Úkraínu til Íslands

Félags- og vinnumarkaðs ráðuneytið hefur skipað sérstakt aðgerðateymi vegna komu einstaklinga á flótta frá Úkraínu. Teymið fer með yfirstjórn aðgerða og vinnur að skipulagningu á móttöku fólks frá Úkraínu en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að unnið sé að því að skipuleggja móttöku flóttamanna með ýmsum hætti innan stjórnkerfisins.

Á vef Stjórnarráðsins segir um flóttamannanefnd: “Hlutverk flóttamannanefndar er m.a. að leggja til við ríkisstjórn heildarstefnu og skipulag móttöku flóttamannahópa skv. 43. gr., hafa yfirumsjón með móttöku hópa flóttafólks og veita stjórnvöldum umsögn um einstök tilvik eftir því sem óskað er.”

Flóttamannanefnd hefur verið falið að fylgjast náið með framvindu mála er varða fólk á flótta frá Úkraínu, bæði í samráði við Norðurlönd, önnur Evrópuríki sem og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, auk þess að fylgjast sérstaklega vel með aðstæðum á landamærum nágrannaríkja landsins.

Staða mannúðarmála

Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum hafa yfir 14.000 manns fallið Úkraínudeilunni frá því stríðið hófst árið 2014, og fram að stórfelldri innrás Rússa árið 2022. Eftir að innrás Rússa var hafin hefur fjöldi látinna margfaldast en mikil óvissa er um hversu nákvæmlega margir hafa fallið.

Í ársbyrjun 2021 hafði stríðið leitt til þess að 734.000 Úkraínumenn voru á vergangi innanlands og yfir 56.000 höfðu flúið landið, samkvæmt norska flóttamannaráðinu (2022). Þessar tölur jukust verulega í kjölfar innrásar Rússa í febrúar 2022. Bara fyrstu vikuna hafði um ein milljón Úkraínumanna flúið land og nokkrar milljónir höfðu verið á vergangi innanlands sögn Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR). Úkraínskum flóttamönnum hefur fjölgað hratt undanfarin misseri í nokkrar milljónir, en eru um 6 milljónir í dag (maí 2022).

Í febrúar 2021 tilkynnti Skrifstofa Sameinuðu þjóðanna um samræmingu mannúðarmála (OCHA) að 3,4 milljónir manna í Úkraínu þyrftu mannúðaraðstoð og vernd. Þessi tala hefur einnig stóraukist í kjölfar innrásar Rússa sem hófst 24. febrúar á þessu ári.